top of page

Iðjuþjálfun í leikskólaumhverfi

Ég kom að þjónustu stráks sem var á síðasta ári í leikskóla sem var að takast á við ýmsa iðjuvanda. Hann átti t.d. erfitt með að róla, hlaupa, standa í röð, halda á gaffli, sitja við borð, klippa og lita.


Ég mætti 1-2x í viku á leikskólann þar sem iðjuþjálfunin fór fram gegnum alls konar leiki, hreyfingu, þrautir og samskipti. Hann átti það til að missa stjórn á skapinu sínu við aðra krakka, vildi oft gera annað en það sem hann átti að gera í leikskólanum og var oft mjög lengi að koma ýmsri iðju í verk eins og að borða, klæða sig og að halda í við aðra í göngutúr. Unnið var að því að auka færni í grófhreyfingum, fíngreyfingum og samhæfingu til að auka færni hans við að taka þátt í nauðsynlegri iðju, leikjum og samskiptum við aðra og veita honum stuðning við að taka þátt í starfi leikskólans með jákvæðari hætti og meiri vellíðan.


Það var alltaf gaman hjá okkur og hann farinn að hlaupa í fangið mitt þegar ég kom í hús spenntur að heyra hvað við værum að fara að gera þann daginn. Færni hans fór hægt og rólega fram og til viðbótar við iðjuþjálfunina þá óskaði ég eftir að hann kæmist í sjúkraþjálfun þar sem hann var með of lítinn vöðvastyrk og úthald miðað við aldur.


Þegar þjónustu minni lauk þá gaf hann mér þau gull og gersemi sem hann hafði fundið fyrr um morguninn í göngutúr með leikskólanum sínum, hestagras og fjöður. Hestagrasið (eins og hann kallaði það) var geymt í buxnavasanum en hann fór sérstaklega í úlpuna sína til að sækja þessa fallegu fjöður sem hafði heillað hann í göngutúrnum. Ég held að þetta sé með dýrmætari gjöfum sem ég hef fengið í starfi mínu sem iðjuþjálfi.



Comments


bottom of page