Heimastyrkur, þróun þjónustu
- Guðrún Jóhanna Hallgrímsdóttir
- Aug 7, 2023
- 2 min read
Heimastyrkur var stofnaður í mars 2017 og bauð þá upp á ráðgjöf og þjónustu út á vettvangi. Þann 1. nóvember 2017 staðfesti Embætti landlæknis að Heimastyrkur uppfyllti lágmarkskröfur embættisins til að veita faglega þjónustu með rekstur á stofu. Það var í fyrsta sinn sem embættið staðfesti að sjálfstætt starfandi iðjuþjálfi gæti veitt þjónustu á stofu á Íslandi. Síðan þá hafa fleiri iðjuþjálfar bæst við í þann hóp sem er virkilega ánægjulegt. Vert er þó að taka fram, að fram að þeim tíma hafa verið sjálfstætt starfandi iðjuþjálfar víðs vegar um landið, þar á meðal ég sjálf sem hafði verið í verktakavinnu fyrir sveitarfélög og félagasamtök frá 2008, og að margir iðjuþjálfar stofnað þjónustufyrirtæki sem veita fjölbreytta velferðar- og heilbrigðisþjónustu fyrir þann tíma.

Jákvæðar breytingar hafa átt sér stað hjá Heimastyrk síðustu ár þar sem starfsemin hefur þróast og stækkað. Í dag er Heimastyrkur með tvær starfsstofur, fjarheilbrigðisþjónustu á netinu, þjónustar börn, fjölskyldur og fullorðna á öllum aldri tengt ýmsum iðjuvanda innan heimilis, í skóla, vinnu og frístundum og áskorunum tengt m.a. skynúrvinnslu og félagsfærni. Heimastyrkur veitir fólki með skerta færni í höndum ráðgjöf og þjálfun t.d. vegna áskorana við að skrifa, verkja, gigtar, handaskaða eða lömunar. Boðið er upp á sértæka þjálfun og ráðgjöf því flest notum við hendurnar í stóran hluta daglegrar iðju og því mikilvægt að hlúa vel að handstyrk, úthaldi, fín- og grófhreyfingum og samhæfingu handa og augna. Allt með því markmiði að þeir einstaklingar verði færir um að sinna eigin þjálfun og heilsu gegnum fræðslu, kennslu og leiðbeiningar ef allt gengur vel. Það er mikilvægt að vera við stjórnvölinn í eigin lífi og sinna eigin heilsu og færni. Það er hægt ef maður kann gagnlegar aðferðir til þess og fær stuðninginn á meðan lærdómurinn á sér stað.
Gott aðgengi að iðjuþjálfun er afar mikilvægt og því hefur Heimastyrkur verið hjá Kara Connect frá því í byrjun árs 2017. Þannig er hægt að bjóða þeim sem eru búsettir út á landi og erlendis upp á ráðgjöf og þjónustu gegnum öruggan fjarfundabúnað sem Embætti landlæknis samþykkir innan velferðar- og heilbrigðisþjónustu.
Heimastyrkur heldur áfram að þróast og þann 1. september 2023 bætist nýr starfsmaður við teymi Heimastyrks og þá verður viðbót í þjónustu Heimastyrks.
Comments