Ég fékk þann heiður fyrir rúmu ári síðan að kynnast og vinna með ungum einstaklingi sem hafði lent í mörgum áföllum og brotnað undan álagi. Þjónustan hafði þann tilgang fyrst að hjálpa viðkomandi að ná tökum á daglegu lífi og iðju svo betra jafnvægi skapaðist í líðan og orkustjórnun. Eftir ákveðin tíma var sett upp raunhæf áætlun um endurkomu á vinnumarkað sem var innan getu- og áhugasviðs og var hægstigvaxandi til að tryggja að jafnvægið héldi áfram í daglegu lífi. Það skemmtilega var að nýja starfið var öðruvísi en fyrri störf og því fékk viðkomandi tækifæri á að draga fram og njóta nýrra styrkleika í starfi. Við kvöddumst þegar markmiðunum sem sett voru hafði verið náð.
Leiðir okkar lágu svo óvænt saman um daginn fyrir algjöra tilviljun tengt sama vinnustað. Þá var aðilinn búinn að auka starfshlutfallið, leið vel og naut sín enn í þessu nýja hlutverki. Það var var líka svo greinilegt hvað viðkomandi var vel metinn á vinnustaðnum, allt hafði fléttast svo vel saman í þessu ferli.
Oft teljum við að við sitjum föst í einhvers konar ólgusjó og engar leiðir færar en með réttum stuðningi og hægfara en markvissum skrefum má ná ótrúlegum árangri. Munum að margt smátt gerir eitt stórt og fall getur verið fararheill.
Comments